1199. fundur

1199. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 11. desember 2023 kl. 14:00 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Magnús Magnússon, formaður,

Friðrik Már Sigurðsson, varaformaður,
Magnús Vignir Eðvaldsson, aðalmaður.

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri,
Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.
Magnús Magnússon formaður setti fund og óskaði eftir að fá að taka á dagskrá sem 7. dagskrárlið viðauka nr. 2 við fjárhagsáætlun ársins 2023. Samþykkt samhljóða. Gengið var til dagskrár.
1.  Úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2023-2024 - 2312002
Vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar.
 
2.  Velferðarnefnd Alþingis sendir yður til umsagnar 509. mál - húsnæðisstefna fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028. - 2311077
Byggðarráð fagnar framkominni húsnæðisstefnu sem er metnaðarfullt plagg og mælir fyrir um þróun húsnæðismála í landinu næstu 15 árin. Jafnframt er ástæða til að fagna samþættingu áætlana innviðaráðuneytis sem fram kemur í framlagðri tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu. Vönduð áætlanagerð og samþætting fyrirliggjandi áætlana eykur slagkraft og þar með líkur á árangri.
Á undanförum árum hefur stjórnkerfi húsnæðismála tekið miklum og jákvæðum breytingum. Þar stendur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) í stafni m.a. með innleiðingu kerfis um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga hafa reynst afar gagnleg tæki til að ná utan um þörf fyrir uppbyggingu innviða í takt við íbúaþróun og leitt til markvissari vinnubragða hvað húsnæðismál varðar. Upplýsingar úr áætlunum nýtast jafnframt vel í almennri miðlun upplýsinga HMS um stöðu á húsnæðismarkaði. Sú stefna í húsnæðismálum sem nú er lögð fram byggir ofan á þann góða grunn sem þegar hefur verið unninn. Byggðarráð leggur höfuðáherslu á að tryggt sé að fjármagn fylgi þeim tillögum sem settar eru fram í áætluninni. Einnig að nauðsynlegar breytingar á regluverki verði unnar samhliða.
Af þeim aðgerðum sem settar eru fram í áætluninni vill byggðarráð lýsa yfir sérstakri ánægju með aðgerðir 1.5 og 1.7 sem ná annars vegar til breytinga á álagningarreglum svo sveitarfélög hafi heimild til að flokka íbúðir sem ekki eru nýttar til búsetu undir C-flokk fasteignagjalda svo þær beri hærri fasteignagjöld. Hins vegar vegna íbúða sem ekki eru nýttar til fastrar búsetu í fjöleignahúsum sem miðar að því að íbúðir séu frekar nýttar til fastrar búsetu en til skammtímaútleigu. Einnig er ástæða til að fagna öllum þeim hugmyndum sem fram koma í 2. lið aðgerða er varða skilvirkari stjórnsýslu og bætt umhverfi mannvirkjagerðar sem stuðli að auknum gæðum, öryggi, rekjanleika og hagkvæmni. Byggðarráð leggur áherslu á brýna nauðsyn einföldunar regluverksins án þess að öryggi sé ógnað eða gengið á skipulagsvald sveitarfélaga. Að mati ráðsins ætti einföldun að vera eitt áhersluatriða í aðgerð 2.3 sem nær til endurskoðunar á byggingarreglugerð.
Byggðarráð fagnar jafnframt áherslum í aðgerð 3.1 um endurskoðun lánaheimilda með tilliti til almannaþjónustuhlutverks HMS á húsnæðismarkaði. Afar brýnt er að lánaheimildir stofnunarinnar verði á samfélagslegum forsendum og þannig afmarkaðar með skýrum hætti við þau sem höllum fæti standa á húsnæðismarkaði. Þetta á einnig við á þeim stöðum á landsbyggðinni þar sem lánastofnanir hafa í einhverjum tilfellum ekki verið viljugar til að lána til húsbygginga þar sem fasteignaverð heldur vart í við byggingarkostnað.
Að síðustu vill byggðarráð benda á í tengslum við aðgerð 3.10 er fjallað um dreifingu kostnaðar vegna húsnæðisúrræða sveitarfélaga með aðkomu Jöfnunarsjóðs sem endurspegli sem best raunkostnað sveitarfélaga við rekstur félagslegra húsnæðisúrræða. Í greinargerð með aðgerðinni eru Reykjavíkurborg og Akureyri sérstaklega nefnd og þær hlutfallslega hærri byrðar sem þessi sveitarfélög bera hvað málaflokkinn varðar en önnur. Óumdeilt er að á stærri stöðum er þungi málaflokksins meiri. Hins vegar er á það bent á þessum stöðum eru tekjumöguleikar sveitarfélaganna jafnframt meiri. Fáar íbúðir í smáu sveitarfélagi geta allt eins verið hlutfallslega þungur baggi. Jafnframt sitja smærri sveitarfélög ekki við sama borð og þau stærri þar sem ná má fram stærðarhagkvæmni í uppbyggingu og rekstri.
Sú þingsályktun sem hér er lögð fram hefur alla burði til að hafa veruleg og varanleg áhrif á húsnæðismarkað á Íslandi. Til að svo megi verða er afar brýnt að nægir fjármunir verði tryggðir til verkefnisins.
Byggðarráð Húnaþings vestra þakkar víðtækt samráð og samtal við vinnslu stefnunnar og lýsir sig til tilbúið til samtals við velferðarnefnd og ráðuneytið um málið. Jafnframt áskilur ráðið sér rétt til umsagnar á seinni stigum málsins.
Sveitarstjóra er falið að koma umsögninni á framfæri við velferðarnefnd Alþingis.
 
 
3.  Velferðarnefnd Alþingis sendir yður til umsagnar 402. mál - Gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra. - 2311081
Byggðarráð Húnaþings vestra tekur undir rök þingsályktunartillögunnar um kosti þess og ávinning að öll börn eigi þess kost að fá holla og góða næringu. Að því sögðu vill ráðið árétta nauðsyn þess að samhliða framlagningu tillögu sem þessarar að ítarlegt kostnaðarmat liggi fyrir og að fjármögnun verkefnisins sé skýr. Verði tillagan samþykkt er því nauðsynlegt að kostnaður við framkvæmdina verði greindur og skilgreint hvernig sveitarfélög fái endurgreiðslur vegna verkefnisins frá hinu opinbera.
 
4.  Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir yður til umsagnar 73. mál Sveitarstjórnarlög (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn). - 2311079
Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.
 
5.  Velferðarnefnd Alþingis sendir yður til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991 (reglugerðarheimildir). 497. mál - 2311074
Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.
 
6.  Fundargerð 939. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 5. desember 2023 - 2312007
Lögð fram til kynningar.
 
Bætt á dagskrá:
7.  Viðauki nr. 2 við fjárhagsáætlun ársins 2023 - 2312012
Sveitarstjóri og sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs lögðu fram tillögu að viðuaka nr. 2 við fjárhagsáætlun ársins 2023 að upphæð kr. 7.100.000
Eignasjóður
Skóla- og frístundasvæði grunnskólans kr. 1.600.000
Íþróttamiðstöðin, endurnýjun lagna kr. 22.000.000
Gangstéttar kr. -2.000.000
Vatnsveita
Vatnsveitulögn Hvammstangi að Laugarbakka kr. 5.500.000
Hitaveita
Endurnýjun dreifikerfis Hvammstanga kr. -20.000.000
Samtals kr. kr. 7.100.000
Hækkun á eignfærðri fjárfestingu er mætt með lækkun handbærs fjár.
 
Vinna við nýjan körfuboltavöll verður umfangsmeiri en upphaflega var áætlað.
Framkvæmdir við íþróttamiðstöðina verða umfangsmeiri en upphaflega var áætlað, m.a. vegna ófyrirséðra bilana, aukins umfangs við dúklagningu laugar og meira umfangs lagnavinnu en gert hafði verið ráð fyrir, m.a. vegna leka á botnloka og endurnýjunar fleiri stúta en áætlað hafði verið.
Vinna við eignfærslu gangstétta var umfangsminni en áætlað var árið 2023.
Viðauki vegna vatnsveituframkvæmdar við vatnsveitulögn frá Hvammstanga til Laugarbakka skapast af efniskaupum vegna stærri lagnar en upphaflega var gert ráð fyrir.
Ekki náðist að fara í vinnu við endurnýjun dreifikerfis hitaveitunnar á Hvammstanga líkt og upphaflega var áætlað. Kostnaður vegna efniskaupa jafnast á móti nýtengingum ársins.
Byggðarráð samþykkir tillögu að viðauka með þremur atkvæðum og vísar viðaukanum til afgreiðslu sveitarstjórnar.
 
 
 
Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:11.
 
Var efnið á síðunni hjálplegt?