319. fundur

319. fundur Sveitarstjórnar Húnaþings vestra haldinn fimmtudaginn 28. nóvember 2019 kl. 15:00 Í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Þorleifur Karl Eggertsson, oddviti, Friðrik Már Sigurðsson, aðalmaður, Valdimar Gunnlaugsson, varamaður, Ingveldur Ása Konráðsdóttir, aðalmaður, Magnús Magnússon, aðalmaður, Magnús Vignir Eðvaldsson, aðalmaður og Sigríður Ólafsdóttir, aðalmaður. 

Starfsmenn

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri.

Ingibjörg Jónsdóttir sviðsstjóri, fjármála- og stjórnsýslusviðs.

 

Fundargerð ritaði: Ingibjörg Jónsdóttir.
1. Fundargerð byggðarráðs, formaður kynnti. 
Fundargerð 1023. fundar byggðarráðs frá 15. nóvember sl. formaður kynnti. 
Fundargerð í 9 liðum. 
Dagskrárliður 1. Erindi frá Sýslumanni, beiðni um afskrift vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda, óinnheimtanlegar kröfur, að upphæð kr. 562.414. auk vaxta. Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum. 
Dagskrárliður 7. Sveitarstjórn staðfestir tillögu byggðarráðs um að nýta ekki forkaupsrétt sveitarfélagsins á hlut Guðrúnar Karlsdóttur í Stóru Borg ytri 2. Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum. 
Fundargerð í heild borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 
2. Fundargerð veituráðs, oddviti kynnti.
Fundargerð 16. fundar frá 26. nóvember sl. fundargerð í 4 liðum.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 
3. Fundargerð ungmennaráðs, oddviti kynnti.
Fundargerð 56. fundar frá 26. nóvember sl. fundargerð í 4 liðum
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
 
4. Fjárhagsáætlun ársins 2020 ásamt 3ja ára áætlun fyrir sveitarsjóð Húnaþings vestra og undirfyrirtæki. Síðari umræða. 
Lögð fram til síðari umræðu tillaga að fjárhagsáætlun sveitarsjóðs og undirfyrirtækja fyrir árið 2020 ásamt áætlun fyrir árin 2021-2023.
Lögð fram svohljóðandi tillaga „Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir framlagða fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 ásamt 3ja ára áætlun fyrir árin 2021-2023 fyrir sveitarsjóð Húnaþings vestra og undirfyrirtæki.” Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum. 
 
 
 
 
Húnaþing vestra
Fjárhagsáætlun 2020
Greinargerð
Gerð fjárhagsáætlunar 2020
Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020 hefur eins og undanfarin ár verið lögð áhersla á hagkvæmni í rekstri sveitarfélagsins og skynsemi í framkvæmdum. Sem fyrr hefur samvinna á milli meirihluta og minnihluta sveitarstjórnar um áherslur við fjárhagsáætlunargerð verið afar góð. Fjárhagsáætlanir einstakra deilda eru unnar í góðri samvinnu við forstöðumenn stofnana.
Í samræmi við ákvæði fjármálareglna um skuldaviðmið og jafnvægi í rekstri sveitarfélaga er rekstrarniðurstaða fjárhagsáætlunar ársins 2020 fyrir samstæðu A- og B-hluta sveitarsjóðs jákvæð. Skuldahlutfallið er skv. áætlun 69,5% fyrir árið 2020 en má skv. ákvæðum fjármálareglna mest vera 150%. Í útkomuspá fyrir árið 2019 er það 56,7%. Skv. þriggja ára áætlun verður skuldahlutfallið árið 2021 79,4%, 78,9% árið 2022 og 76,5 % árið 2023. Hækkunin kemur til vegna mikilla framkvæmda næstu 2-3 ár.
 
Á árunum 2015-2019 hefur verið farið í miklar framkvæmdir vegna hitaveitu í dreifbýli og endurnýjunar hitaveitulagna á Hvammstanga. Lántaka vegna framkvæmdanna árin 2015-2019 er alls kr. 170 milljónir. Hjá eignasjóði var tekið lán að upphæð 40 milljónir árið 2019 vegna viðbyggingar við íþróttahús og undirbúningsvinnu vegna viðbyggingar við grunnskóla. Á árinu 2020 er gert ráð fyrir lántöku vegna hitaveituframkvæmda kr. 80 milljónir og hjá eignasjóði vegna viðbyggingar við grunnskóla kr. 210 milljónir. Á sama tíma eru eldri lán greidd niður um kr. 76 milljónir.
 
Á liðnum árum hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra almennt hækkað gjaldskrár í samræmi við verðlagsbreytingar. Árið 2020 eru gjaldskrárhækkanir í samræmi við viðmið lífskjarasamningsins. Vistunargjald leikskóla hefur þó ekki hækkað frá árinu 2011.
Álagningaprósenta A-gjalds fasteignaskatts er færð aftur í sama hlutfall og hún var í árið 2018 eða í 0,38% en vegna mikillar hækkunar fasteignamats árið 2019 var hlutfallið lækkað í 0,36% fyrir árið 2019. Sveitarstjórn Húnaþings vestra leggur sem fyrr mikið upp úr stuðningi við íþrótta- og tómstundastarf barna á árinu 2020. Það er meðal annars gert með myndarlegum styrkjum til USVH sem svo útdeilir því fjármagni til íþróttafélaganna í sveitarfélaginu. Einnig er veittur frístundastyrkur eins og undanfarin ár fyrir hvert barn frá 6 ára aldri allt til 18 ára aldurs. Á árinu 2020 er frístundastyrkur óbreyttur frá fyrra ári kr. 19.000. Framboð íþróttagreina hjá íþróttafélögunum í sveitarfélaginu er sem fyrr gott og æfingagjöld lág. Skiptir þar án efa miklu máli styrkur sveitarfélagsins til félaganna, ekki bara fjárhagslegur heldur líka í formi afnota af íþróttamannvirkjum. Þá eru greiddir akstursstyrkir til foreldra í dreifbýli sem þurfa að keyra sérstaklega til að koma/sækja börn á æfingar. 
 
Gjöld í Tónlistarskóla Húnaþings vestra eru sömuleiðis með þeim lægstu á landinu og ekki hafa verið settar takmarkanir á nemendafjölda við tónlistarskólann eins og víða tíðkast. Eins og undanfarin ár mun sveitarfélagið halda áfram að styðja vel við dreifnám Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra m.a. með greiðslu á húsaleigu fyrir skólahúsnæðið og rekstur þess sem og kaupum á nauðsynlegum búnaði. Á árinu 2020 er gert ráð fyrir því að þessi styrkur nemi 6,6 milljónum króna.
 
Á síðastliðnu sumri héldu viðhaldsframkvæmdir vegna hitaveitu á Hvammstanga áfram og verður eins á komandi ári. Áfram verður unnið að undirbúningi á stækkun hitaveitunnar í Hrútafirði. Stærstu fjárfestingarverkefni ársins 2020 er stækkun Grunnskóla Húnaþings vestra ásamt áframhaldandi framkvæmdum við ljósleiðara, hitaveitu og gatnagerð.
Húnaþing vestra veitir sem fyrr fjölmörgum félagasamtökum og menningarverkefnum styrki á árinu 2020 að fjárhæð alls 25,7 milljónir króna. Því til viðbótar eru greiddir styrkir til leikfélags, styrkir vegna fasteignagjalda og hitaveitu til félaga o.fl. Að síðustu skal nefnt að í fjárhagsáætlun ársins 2020 er gert ráð fyrir að áfram verði fjármagni veitt í Atvinnu- og nýsköpunarsjóð Húnaþings vestra sem stofnaður var árið 2014. Sjóðnum er ætlað að styðja við frumkvöðla- og nýsköpunarstarf í sveitarfélaginu en reynslan hefur sannað gildi sjóðsins.
 
Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2020
Áætlunin er lögð fram með um kr. 611 þús. tekjuafgangi. Áætlað er að fráveita og vatnsveita skili rekstrarafgangi en önnur B-hluta fyrirtæki séu rekin með halla.
Tekjur samstæðunnar eru áætlaðar 1.595 millj. kr. en gjöld 1.562 millj. kr. án fjármagnsliða.
 
Fjármagnsliðir eru áætlaðir 32,1 millj. kr.
Veltufé frá rekstri til greiðslu afborgana lána og til fjárfestinga er 94 millj. kr.
Hlutfall veltufjár frá rekstri er áætlað 5,9%.
 
Áætlað er að afborgun langtímalána nemi 75,8 millj. kr. á árinu 2020.
Handbært fé í árslok 2020 er áætlað 69,2 millj. kr. sem er lækkun um 40 millj. kr. frá ársbyrjun. Stafar það að mestu vegna framkvæmda við gatnagerð, viðbyggingu grunnskólans ásamt hitaveituframkvæmdum. Gert er ráð fyrir hækkun skulda og skuldbindinga um 233 millj. kr. frá afkomuspá ársins 2019.
 
Gert er ráð fyrir eignfærðri fjárfestingu á árinu 2020 upp á 344,7 millj. kr.
Í þriggja ára áætlun, árin 2021, 2022 og 2023, er gert ráð fyrir eignfærðri fjárfestingu samtals að upphæð 533 millj. kr.  að mestu vegna viðbyggingar við grunnskóla ásamt framkvæmdum við hitaveitu og vatnsveitu. Á árunum 2021, 2022 og 2023 er gert ráð fyrir lántökum samtals að upphæð 485 millj. kr. en á sama tíma verði á því tímabili sem áætlunin nær til greidd niður lán um 254 millj. kr.
 
Sveitarstjórn fagnar því að rekstur sveitarfélagsins leyfi áframhaldandi framkvæmdir til hagsbóta fyrir íbúa í Húnaþingi vestra. Þessar framkvæmdir eru aðeins mögulegar vegna ábyrgrar fjármálastjórnar og jafnvægis í rekstri undanfarin ár. Afar mikilvægt er að halda áfram að sýna ráðdeild í rekstri, halda fyrirhugðum framkvæmdum áfram af skynsemi og lágmarka lántökur eins og kostur er.
 
Fyrir fundinum lá sérfræðiálit frá Ólafi Sveinssyni hagverkfræðingi vegna framkvæmda sem fyrirhugaðar eru árin 2020 og 2021 við Grunnskóla Húnaþings vestra. Álitið er tekið saman í samræmi við ákvæði 66. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 með síðari breytingum, um miklar fjárfestingar og skuldbindingar. Við yfirferð gagna verður ekki séð að áform um fjárfestingu í húsnæði grunnskólans hafi verulega íþyngjandi árif á rekstur og fjárhag sveitarfélagsins. Þá er skuldahlutfall sveitarfélagsins vel undir þeim viðmiðum sem sveitarstjórnarlög kveða á um. Auk þess á sveitarfélagið verulega fjármuni í handbæru fé. 
 
Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:26
 
 
Var efnið á síðunni hjálplegt?