283. fundur

283. fundur skipulags- og umhverfisráðs haldinn mánudaginn 22. maí 2017 kl. 17:00 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Pétur Arnarsson, Guðjón Þórarinn Loftsson, Árborg Ragnarsdóttir og Ragnar Smári Helgason 

Starfsmenn

Byggingarfulltrúi: Ólafur Jakobsson

Fundargerð ritaði: Pétur Arnarsson

Dagskrá:

  1. Erindi nr. 1705021. Hafnarbraut 9, rif á mannvirkjum.
  2. Erindi nr. 1610003. Þúfa veiðihús, niðurstaða grenndarkynningar.
  3. Erindi nr. 1705034. Stóra-Ásgeirsá land 217996, sumarhús.
  4. Erindi nr. 1705001. Syðsti-Ós, landskipti og stækkun lóðar. Áður á dagskrá 282. fundar.

Tekið á dagsskrá:

5. Erindi nr. 1611037. Kolugljúfur, deiliskipulag.

 

Afgreiðslur:

1. Erindi nr. 1705021. Haukur Einarsson, kt. 200969-5029, hjá Mannvit verkfræðistofu sækir fyrir hönd Skeljungs hf, kt. 590269-1749, um leyfi til niðurrifs á 300 m3 olíugeymis, ásamt lögnum og þró, mhl. 01 ásamt dæluskýli, mhl 02, á lóðinni Hafnarbraut 9, lnr. 144431.

Skipulags- og umhverfisráð samþykkir erindið og vísar förgun úrgangs og frágangi til heilbrigðiseftirlits.

2. Erindi nr. 1610003. Þúfa veiðihús, niðurstaða grenndarkynningar.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkti þann 11. apríl 2017, að grenndarkynna byggingu veiðihúss á lóðinni Þúfu, lnr 224533, sem stofnuð var úr landi Refsteinsstaða II.

Uppdrættir sem sýna veiðihúsið, ásamt kynningarbréfi hafa fengið grenndarkynningu í samræmi við 44. gr skipulagslaga 123/2010, með auglýsingu frá 11. apríl 2017 og með fresti til að skila inn athugasemdum til 11. maí 2017.

Húnaþing vestra móttók tölvupóst frá Óttari Yngvasyni 9. maí 2017 með athugasemd.

Athugasemdin varðar:

Staðsetningu veiðihúss á lóðinni Þúfu rétt austan við landamerki Refsteinsstaða I og flokkun veiðihússins sem frístundahúss.

Einnig er grenndarkynningu hafnað og talið óhjákvæmilegt að vinna deiliskipulag á þeim forsendum að framkvæmdin sé ekki í samræmi við aðalskipulag Húnaþings vestra um að „forðast skuli stakstæð hús á víðavangi“ og ekki liggi fyrir deiliskipulag.

Svar:

a)       Landskipti úr landi Refsteinsstaða II, Þúfa lnr. 224533 og stofnun byggingarreits.

Landeigendur Refsteinsstaða II sendu inn erindi, móttekið 2. ágúst 2016, um stofnun spildu úr landi Refsteinsstaða II og byggingarreit innan hennar. Fyrir liggur skriflegt samþykki allra eigenda. Erindið var tekið fyrir og samþykkt á 272. fundi skipulags- og umhverfisráðs 4. ágúst 2016, með málsnúmer 1608002 og staðfest á fundi byggðaráðs 8. ágúst 2016.

Í greinargerð Aðalskipulags kafla 3.2.1 er heimilað að afmarka lóðir og reisa allt að þremur íbúðarhúsum þar sem aðstæður leyfa á lögbýlum yfir 70ha. Ný íbúðarhús skulu nýta sömu heimreið og lögbýlið. Auk þess er heimild til að byggja allt að þremur stökum frístundahúsum auk aðstöðu fyrir ferðaþjónustu og léttan iðnað. Einnig er heimilt þar sem aðstæður leyfa að að hafa sérhæfðar byggingar fyrir ferðaþjónustu, svo fremi sem heildarstærð þeirra fari ekki yfir 1.500m2.

Hér er um staka framkvæmd innan lögbýlis að ræða, sem uppfyllir ákvæði aðalskipulags.

Útskipta spildan nýtir sömu heimreið og fyrir er og er að því leyti í tengslum og samhengi við aðra byggð. Staðsetningin samræmist þeim markmiðum sem búa að baki þessum ákvæðum; að ekki verði fjölgað tengingum við þjóðveg og að ný hús tengist þeirri þjónustu sem fyrir er veitt.

Umfjöllun greinargerðar aðalskipulags um að forðast skuli stök hús á víðavangi á við um íbúðarhús.

Í umfjöllun aðalskipulagsins, strax á eftir þeirri umfjöllun, er fjallað um önnur hús svo sem frístundahús, aðstöðu fyrir ferðaþjónustu ofl. Telja verður eðlilegt að frístundahús og aðstaða fyrir ferðaþjónustu, þar með talin veiðihús, standi fjarri íbúðarhúsum jarða þar sem hagsmunir og eðli slíkrar landnotkunar sé önnur en íbúðarhúsa.

Stofnun landspildu úr landi Refsteinsstaða II og byggingarreits innan hennar, fyrir veiðihús, er í samræmi við gildandi aðalskipulag Húnaþings vestra.

b)      Byggingarleyfi veiðihúss.

Umsagnaraðili er aðili að veiðifélagi Víðidalsár fh. Laufáss og Refsteinsstaða I, og þar með aðili að byggingarleyfisumsókn um veiðihúsið.

Umsókn Veiðifélags Víðidalsár um byggingarleyfi fyrir veiðihús er áritað 1. október 2016, móttekið 3. október og hefur málsnúmer 1610003.

Uppdrættir af veiðihúsi sem áætlað er að byggja á lóðinni, voru samþykktir 31. október 2016. Sveitarfélagið hefur gefið út takmarkað byggingarleyfi sem veitir heimild til að gera grunn, sökkul og gólfplötu.

Í þjóðskrá er Þúfa lnr. 224533 skráð með notkunina viðskipta- og þjónustulóð og í eigu sömu aðila og Refsteinsstaðir II.

Húsið sem takmarkað byggingarleyfi hefur verið veitt fyrir, er skráð með fastanúmer 236-0335, merkingu 01 0101, notkunina veiðihús, birta stærð 105,9m2 og í eigu Veiðifélags Víðidalsár, kt. 680269-3199.

Í kynningarbréfi um Þúfu veiðihús kemur ranglega fram að húsið sé skráð sem frístundahús. Beðist er velvirðingar á því. Húsið er skráð sem veiðihús í fasteignagrunni Þjóðskrár.

Útgefið byggingarleyfi fyrir grunni, sökkli og gólfplötu er m.a.veitt á grunni heimilda í greinarkafla 3.2.1  í gildandi aðalskipulagi.

Niðurstaða :

Skipulags- og umhverfisráð þakkar athugasemdir um villu í kynningarbréfi en fellst ekki á fram komin sjónarmið í athugasemd að öðru leyti.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að staðfesta fyrri afgreiðslur um útskiptingu lands og stofnun byggingarreits á grunni kafla 3.2.1 í gildandi aðalskipulagi, ásamt útgáfu byggingarleyfis fyrir veiðihúsi á byggingarreitnum.

3. Erindi nr. 1705034. Elías Guðmundsson, kt. 150649-3159, sækir með erindi mótteknu 15.5.2017, um leyfi til að reisa sumarhús með bílskúr á landi sínu: Stóra-Ásgeirsá land lnr. 217996.

Skipulags og umhverfisráð frestar erindinu með vísan í athugasemdablað.

4. Erindi nr. 1705001. Ingibjörg Jónsdóttir, kt. 220378-3069, sækir um fyrir hönd Jóns Böðvarssonar, Syðsta Ósi, kt. 150749-4929, að skipta skika út úr jörðinni, Syðsta-Ósi  lnr. 144152 og sameina hann lóðinni Syðsti-Ós lóð, lnr. 200369. Skikinn, sem er 1100 m2, er norðan lóðarinnar eins og fram kemur á meðfylgjandi hnitsettum uppdrætti, gerðum af Loftmyndum ehf. Lóðin heldur nafni og landnúmeri eftir stækkunina og verður 2835 m2. Meðfylgjandi er samþykki Þórunnar Guðfinnu Sveinsdóttur.

Skipulags- og umhverfisráð samþykkir landskiptin og stækkun lóðarinnar.

Guðjón Þórarinn Loftsson vék af fundi við afgreiðslu þessa liðar.

 

Tekið á dagsskrá:

5. Erindi nr. 1611037. Lögð fram tillaga að deiliskipulagi Koluglúfurs. Skipulagsgögnin samanstanda af  skipulagsuppdrætti með greinargerð og skýringaruppdrætti frá Teiknistofu Norðurlands.

Skipulags- og umhverfisráð mælir með að sveitarstjórn samþykki að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 41. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsfulltrúa er falið að kynna tillöguna og forsendur hennar fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum eins og 4. mgr. 40 gr. Skipulagslaga  nr. 123/2010 mælir fyrir um áður en hún verður lögð fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.

Skipulags- og umhverfisráð bendir á að afgreiðslur ráðsins jafngilda EKKI byggingarleyfi. Byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfið þegar öll tilheyrandi gögn hafa borist og sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur staðfest fundargerðina.

Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:00

Var efnið á síðunni hjálplegt?