1137. fundur

1137. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 13. júní 2022 kl. 14:00 Ráðhús.

Fundarmenn

Magnús Magnússon formaður, Friðrik Már Sigurðsson varaformaður og Þorgrímur Guðni Björnsson varamaður.

Starfsmenn

Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs. 

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg

Afgreiðslur:

  1. Viðauki nr. 2 við fjárhagsáætlun ársins 2022.

Lögð fram tillaga að eftirfarandi viðauka vegna fjárhagsáætlunar 2022:

„41 – Vatnsveita kr. 1.000.000

61 – Fráveita kr. 2.000.000

Tekið af liðnum 2190, Ófyrirséð kr. -3.000.000

Fyrirhuguð endurnýjun vatns- og fráveitulagna á Norðurbraut á árinu er umfangsmeiri en upphaflega var gert ráð fyrir.

Ófyrirséð lækkar sem sömu fjárhæð nemur og því hefur viðaukinn ekki áhrif á áætlaða rekstrarafkomu Húnaþings vestra árið 2022.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 3 atkvæðum.

2.  Breyting á skipan í öldungaráð.

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Byggðarráð samþykkir að tilnefna Þorvald Böðvarsson sem fyrsta varamann í öldungaráð í stað Ólafs B. Óskarssonar.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 3 atkvæðum.

3. Bréf frá Félagi eldri borgara í Húnaþingi vestra frá 31. maí sl., en erindinu var frestað á 1136. fundi byggðarráðs. Í erindinu kemur fram að aðalmenn félagsins í öldungaráði kjörtímabilið 2022 – 2026 verði Eggert Karlsson, Sigríður Tryggvadóttir og Ólafur B. Óskarsson. Varamenn verði Kristín R. Guðjónsdóttir, Sigurbjörg M. Guðmannsdóttir og Þráinn Traustason. Byggðarráð þakkar fyrir tilnefningar Félags eldri borgara í öldungaráð Húnaþings vestra.

Í erindinu kemur einnig fram ábending félagsins þess efnis að öllum fulltrúum verði greitt fyrir fundarsetu í öldungaráði, en ekki einungis þeim fulltrúum sem kosnir eru af sveitarstjórn. Félagið fer þess jafnframt á leit við sveitarfélagið að leiðréttar verði greiðslur til fundarmanna sem ekki voru skipaðir af sveitarfélaginu á síðasta kjörtímabili.

Lögð fram eftirfarandi tillaga bókun:

„Byggðarráð getur ekki orðið við þeirri ósk að greiða fundarmönnum öldungaráðs sem skipaðir eru af öðrum hagaðilum fyrir setu í öldungaráði.“

Bókunin samþykkt með 2 atkvæðum. Þorgrímur Guðni Björnsson sat hjá við afgreiðslu þessa dagskrárliðar.

4. 2206010 Strandapósturinn, styrkbeiðni.

Lögð fram beiðni frá ritstjórn Strandapóstsins um að Húnaþing vestra kaupi styrktarlínu í næsta tölublaði.

Byggðarráð getur ekki orðið við þessari beiðni.

5. 2206009 Jafnlaunavottun Húnaþings vestra.

Lagt fram vottunarskírteini frá iCert sem staðfestir að Húnaþing vestra starfrækir jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur sem settar eru fram í staðlinum ÍST 85:2012 og nær til allra starfsmanna Húnaþings vestra. Jafnframt var lögð fram staðfesting frá Jafnréttisstofu sem heimilar sveitarfélaginu að nýta jafnlaunamerkið til 5. júní 2025.

Byggðarráð fagnar þessum árangri sem staðfestir að starfsfólk Húnaþings vestra, sem vinnur sömu og/eða jafnverðmæt störf, fái sömu laun og ekki sé að finna kynbundinn mismunun í launamálum sveitarfélagsins.

Bætt á dagskrá:

Björn Bjarnason kom til fundar við byggðarráð.

6. Reykjaeignir ehf. Björn Bjarnason rekstrarstjóri fór yfir stöðu kostnaðargreiningar á nauðsynlegum framkvæmdum á Reykjaeignum. Rekstrarstjóra falið að gera tillögu að áfangaskiptingu framkvæmdanna á árin 2022-2024.

7. Endurnýjun lagna í Norðurbraut. Lagt fram tilboð í neyslu- og fráveitukerfi að Norðurbraut á Hvammstanga frá Ingibirni Pálmari Gunnarssyni, að fjárhæð kr. 5.785.500 með virðisaukaskatti.

Byggðarráð samþykkir tilboðið og felur rekstrarstjóra undirritun samningsins.

Björn Bjarnason vék af fundi byggðarráðs.

8. Skólastjóri Tónlistarskóla Húnaþings vestra.

Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að auglýsa eftir skólastjóra Tónlistarskóla Húnaþings vestra í 80-100% starf.

9. Staða sauðfjárræktar.

Lögð fram eftirfarandi bókun:

„Í nýrri samantektarskýrslu um stöðu sauðfjárræktar, sem Byggðastofnun vann fyrir innviðaráðuneytið, er dregin upp dökk mynd af stöðu og framtíðarhorfum sauðfjárræktar á Íslandi. Rekstrarafkoma sauðfjárbúa hefur verið neikvæð undanfarin ár og útlit fyrir óbreytt ástand, meðal annars vegna hækkana á aðföngum. Afurðaverð sauðfjárafurða hefur ekki fylgt verðlagsþróun og ljóst er að ekki verður lengur við slíkar aðstæður unað. Byggðarráð Húnaþings vestra skorar á stjórnvöld að finna raunhæfar leiðir sem fyrst til að treysta rekstrargrundvöll sauðfjárbænda, svo ekki verði hrun í greininni með tilheyrandi byggðaröskun.

Landbúnaður er gríðarlega mikilvægur fyrir byggðafestu á landsbyggðunum og nauðsynlegt að tryggja honum fyrirsjáanlegan rekstrargrundvöll til langs tíma. Samhent átak stjórnvalda, afurðastöðva og annarra hagaðila þarf til að snúa þessari þróun við án tafar.“

 

Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:33.

Var efnið á síðunni hjálplegt?