1111. fundur

1111. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 1. nóvember 2021 kl. 14:00 Í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Friðrik Már Sigurðsson formaður, Þorleifur Karl Eggertsson, varaformaður og Magnús Magnússon, aðalmaður.

 

 

Starfsmenn

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri. 

 

 

Fundargerð ritaði: Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir.

Afgreiðslur:

  1. 2110050 Lagt fram erindi frá Selasetri Íslands þar semóskað er eftir að víkja frá ákvæðum í samningi frá 2018 þar sem Selasetur Íslands skuldbindur m.a. sig til að reka upplýsingamiðstöð allt árið um kring, með breytilegum opnunartíma eftir árstíma. Á árinu 2022 hyggst Selasetrið hafa opið frá 1. apríl til 30. október. Í 5. gr. samningsins kemur fram að hætti Selasetrið af einhverjum ástæðum rekstri upplýsingarmiðstöðvar á samningtímanum falli samningurinn sjálfkrafa úr gildi, án uppsagnar. Byggðarráð telur að með þessari ákvörðun falli samningurinn úr gildi og vísar ósk um áframhaldandi styrkveitingu til fjárhagsáætlunargerðar.
  2. 2110041 Lagt fram til kynningar bréf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslandsþar sem tilkynnt er um ágóðahlutagreiðslu 2021. Hlutdeild sveitarfélagsins í Sameignarsjóði EBÍ er 0.953% og greiðsla ársins er kr. 857.700.-
  3. 2110042 Umsókn um lóð. Björk Sigurðardóttir og Rúnar Kristjánsson sækja um byggingarlóð undir íbúðarhúsnæði að Lindarvegi 8. Byggðarráð samþykkir ofangreinda umsókn.
  4. 2110040 Lögð fram fjárhagsáætlun málefna fatlaðs fólks 2022 og uppfærð áætlun fyrir árið 2021 ásamt bréfi frá Sveitarfélaginu Skagafirði þar sem fram kemur að byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar hafi samþykkt á síðasta fundi sínum tillögu að viðauka við fjárhagasáætlun 2021 vegna málefna fatlaðs fólks. Einnig fylgir uppfærð áætlun fyrir árið 2021 með skiptingu á halla ársins. Sendur verður sérstakur reikningur til aðildasveitarfélaga sem tekur mið af halla fyrstu átta mánuði ársins. Þá er lögð fram fjárhagsáætlun ársins 2022 sem byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur samþykkt. Í áætluninni fyrir árið 2022 kemur fram útreiknað tap og tekjur sem áætlaðar eru út frá tekjuáætlun ársins 2021 og framlag Jöfnunarsjóðs sem er samkvæmt áætlun fyrir árið 2022.

Byggðarráð lýsir áhyggjum af verulega auknum kostnaði við rekstur málaflokksins án þess að skýringar og sundurliðanir fylgi áðurnefndum áætlunum frá Sveitarfélaginu Skagafirði, sem er leiðandi sveitarfélag í málaflokknum á Norðurlandi vestra. Byggðarráð vísar fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar vegna málefna fatlaðs fólks fyrir árið 2022 til fjárhagsáætlunargerðar. Jafnframt felur byggðarráð sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að gera viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2021 vegna aukningar á hallarekstri miðað við fyrstu átta mánuði ársins.

   5. 2110036 Lögð fram til kynningar rekstraráætlun Skólabúðanna Reykjaskóla, fyrir skólaárið 2021-2022.

   6. 2110035 Umsókn um styrk. Lagt fram bréf frá Evu-Lenu Lohi þar sem hún óskar eftir styrk fyrir Lúsíuhátíð sem hún hyggsta halda 12. desember í samvinnu við fjölda aðila. Byggðarráð samþykkir að veita Evu-Lenu Lohi styrk að upphæð 30 þúsund til að halda Lúsíuhátíð í Húnaþingi vestra.

  7. Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því við sveitarfélagið að tilnefna fulltrúa vegna innleiðingar laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Byggðarráð tilnefnir Henrike Wappler félagsráðgjafa sem fulltrúa sveitarfélagsins.

  8. Lögð fram til kynningar fundargerð 438. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands.

  9. Heilsueflandi samfélag. Frestað til næsta fundar.

Bætt á dagskrá:

  10.  Drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu. Byggðarráð telur að almennt séu drögin illa unnin, í þeim felast ýmsar þversagnir og sömuleiðis sé ástæða til að velta því upp hvort þessi drög að reglugerð standist gagnvart þeim lögum sem vísað er í.

Þá má nefna að ýmislegt sem tilgreint er sem skyldur eru þættir sem bændur eru nú þegar að ástunda í sínum búskap, svo sem bætt nýting búfjáráburðar og minni notkun tilbúins áburðar, má því velta fyrir sér hvers vegna er talin þörf á að festa þessi atriði inn í reglugerð. Svo virðist sem landeigendum sé ekki lengur treyst til að gæta landsins eins og verið hefur um aldir. Byggðarráð telur að fólkið sem byggir og yrkir landið sé best treystandi til að varðveita og viðhalda því.

Byggðarráð beinir því til ráðuneyta sem hafa með hagsmuni landsbyggðanna að gera að hafa beint samráð við aðila sem eiga hagsmuna að gæta áður en reglugerðir eru samdar og birtar, enda gera stjórnsýslulög ráð fyrir að slíkt samráð sé viðhaft.

Byggðarráð gerir fjölmargar athugasemdir við drögin og felur sveitarstjóra að senda þær inn í samráðsgátt stjórnvalda.

 

 

Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:52

 

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?