1069. fundur

1069. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 30. nóvember 2020 kl. 14:00 Í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Ingveldur Ása Konráðsdóttir, formaður, Friðrik Már Sigurðsson, aðalmaður og Magnús Magnússon, aðalmaður.

Starfsmenn

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri. 

Fundargerð ritaði: Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir.

1. Lagt fram bréf frá Veraldarvinum þar sem kynnt er verkefnið Strandverðir Íslands  og óskað eftir þátttöku sveitarfélagsins.  Byggðarráð tekur jákvætt í erindið og felur umhverfisstjóra að vera tengiliður við verkefnið.  Sveitarstjóra falið að svara erindinu í samræmi við umræður á fundinum.

2. Lögð fram til kynningar fundargerð 891. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Bætt á dagskrá:

 

3. Atvinnu- og nýsköpunarsjóður.  Lögð fram lokaskýrsla vegna styrkveitingar sem Sindrastaðir ehf. fengu úthlutað úr Atvinnu- og nýsköpunarsjóði Húnaþings vestra fyrir verkefnið Online riding school.  Byggðarráð samþykkir skýrsluna og að eftirstöðvar styrksins verði greiddar út.  Friðrik Már Sigurðsson vék af fundi undir þessum lið.

 

4. Áhrif COVID-19 á rekstur sveitarfélagsins, lögð fram eftirfarandi bókun:

 

„COVID-19  hefur haft veruleg áhrif á rekstur sveitarfélagsins með tekjutapi og auknum kostnaði og fram til þessa dags eru neikvæð áhrif vegna COVID-19 88,3 milljónir króna.  Þar vegur stórt þeir sex dagar sem öllu var lokað í sveitarfélaginu.

 

Frá 21. mars til og með 27. mars sl. voru allir  íbúar sveitarfélagsins látnir sæta úrvinnslusóttkví sem var tímabundin ráðstöfun meðan unnið var að smitrakningu. Í henni fólst að einungis einn aðili af hverju heimili gat í hvert sinn yfirgefið heimilið til að afla aðfanga.  Úrvinnslusóttkvíin gilti ekki um lífsnauðsynlega starfsemi, s.s. hjúkrunarheimili, sjúkrahús og verslun með matvæli og eldsneyti. Öll önnur starfsemi lá því niðri á þessum tíma.  Kostnaður sem sveitarfélagið varð fyrir meðan á úrvinnslusóttkví stóð eru 14,6 milljónir króna, útlagður kostnaður og tekjutap.

 

Áhrifa heimsfaraldurs COVID-19 gætir víða í sveitarfélaginu sér í lagi hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu, tengdum greinum og  ýmiskonar þjónustustarfsemi sem sætt hefur takmörkunum og lokunum á árinu.

 

Í lok júní var atvinnuleysi í Húnaþingi vestra 5%  og er spáð 5,8%  í lok árs 2020 og hefur ekki verið meira síðan í upphafi árs 2010.  Byggðarráð lýsir áhyggjum sínum yfir vaxandi atvinnuleysi í Húnaþingi vestra og kallar eftir auknum stuðningi við nýsköpun, atvinnuuppbyggingu og fjölgun opinberra starfa í sveitarfélaginu.  Einnig lýsir byggðarráð áhyggjum sínum af miklum kostnaði og tekjutapi sem sveitarfélagið hefur orðið fyrir á árinu vegna áhrifa COVID-19,  sérstaklega hvað varðar kostnað vegna úrvinnslusóttkvíar.  Byggðarráð hvetur ríkisvaldið að grípa til sértækra aðgerða fyrir þau sveitarfélög sem sætt hafa úrvinnslusóttkví. Þá kallar byggðarráð eftir auknu fjárframlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að mæta skertum framlögum sjóðsins og því tekjutapi sem sveitarfélög í landinu hafa orðið fyrir vegna  COVID-19.“

 

Bókunin borin undir atkvæði og samþykkt með þremur atkvæðum.

 

 

 

 

 

Fundargerð upplesin og samþykkt.                           Fundi slitið kl. 14:46

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?